Vísað er til tilkynningar á heimasíðu Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur veitt Íslenskum fjárfestum hf. auknar starfsheimildir sem m.a. felast í eignastýringarþjónustu, heimild til að hafa umsjón með útboðum án sölutryggingar og töku verðbréfa til viðskipta auk vörsluþjónustu. Framangreindar heimildir bætast við núverandi starfsheimildir félagsins og hefur starfsleyfi þess verið endurútgefið af þessu tilefni.
Samhliða auknu starfsleyfi hafa verið gerðar skipulagsbreytingar og fer starfsemi félagsins nú fram á tveimur sviðum, markaðsviðskiptum og eignastýringu. Gunnar Freyr Gunnarsson mun leiða markaðsviðskipti Íslenskra fjárfesta og Tómas Karl Aðalsteinsson mun leiða eignastýringu Íslenskra fjárfesta.
Hannes Árdal, framkvæmdastjóri Íslenskra fjárfesta:
„Það er ánægjulegt fyrir okkur hjá Íslenskum fjárfestum hf. að hafa fengið auknar starfsheimildir. Frá árinu 2018 hefur félaginu vaxið fiskur um hrygg og eru þessar breytingar eðlilegt næsta skref hjá okkur til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu. Heimild til að sjá um útboð án sölutryggingar mun styðja enn frekar við starfsemi markaðsviðskipta og heimild til að sinna eignastýringu gerir okkur kleift að bjóða viðskiptavinum fjárfestingaráðgjafar aukna þjónustu í formi eignastýringar og vörsluþjónustu.“
Tómas Karl Aðalsteinsson, forstöðumaður eignastýringar Íslenskra fjárfesta:
„Undanfarin ár höfum við byggt upp öfluga fjárfestingaráðgjöf fyrir einstaklinga og lögaðila og fundið fyrir áhuga viðskiptavina á víðtækari þjónustu. Við munum eftir sem áður einbeita okkur að persónulegri og óháðri ráðgjöf með langtímahagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi.“