Íslenskir fjárfestar hf. tilkynna í dag nafnabreytingu og heita nú ACRO verðbréf.
ACRO verðbréf er óháð verðbréfafyrirtæki sem starfað hefur frá árinu 1994 við góðan orðstír. Félagið hefur verið öflugt í verðbréfamiðlun síðustu ár ásamt því að hafa opnað leið fyrir innlenda fjárfesta að erlendum mörkuðum í rúman aldarfjórðung. Nýlega bættum við eignastýringu við þjónustuframboð ACRO verðbréfa.
Gamla nafnið hefur nýst okkur vel í aldarfjórðung en með nýjum og auknum umsvifum er kominn tími á þessa breytingu. Við hlökkum til að þjónusta viðskiptavini okkar áfram undir nýju nafni.
Nýja nafnið vísar annars vegar til verðmætasköpunar fyrri tíðar þar sem orðið á sér rætur í akuryrkju. Hins vegar vísar nafnið til hápunkta í landslaginu þar sem hægt er að fá betri yfirsýn og skýrari mynd af umhverfinu hverju sinni.
Við munum eftir sem áður leggja rækt við persónulega og óháða ráðgjöf í verðbréfamiðlun og eignastýringu og nýta reynslu okkar, þekkingu og yfirsýn með langtímahagsmuni viðskiptavina okkar að leiðarljósi.